Aðalfundur 17.03.2018
Fundarstjóri: Sigurður Aðalsteinsson
1. Fundur settur
Bjarni setur fundinn og býður fólk velkomið
2. Skipun fundarstjóra og fundarritara
Bjarni leggur til að Sigurður Aðalsteinsson verði fundarstjóri og Sindri Freyr Sigurðsson fundarritari og
voru engin andmæli við því.
3. Skýrsla stjórnar og nefnda
Búin að vera mikil vinna á fáum höndum síðustu ár í ýmsum verkefnum og framkvæmdum og ákvað
stjórn því að nota meira af aðkeyptri vinnu í verkefnum á síðasta ári. Var það nýtt við byggingu bíslags
við skúrinn og tókst vel.
Svæðið verður betra og betra með hverju ári en áin hefur verið erfið við okkur og tvisvar grafið það
mikið úr veginum að brúnni að hann hefur orðið ófær.
Haglabyssunefndin hefur verið vel virk með marga viðburði og dugleg að draga að sér fleiri til að
aðstoða við verkefni. Kristján Krossdal hefur verið atkvæðamikill í þessari nefnd en verður því miður
frá að hverfa vegna anna.
Bogfimideildin er í góðum gír og hafa meðlimir í deildinni farið víða að keppa og hafa m.a. verið sett
nokkur Íslandsmet.
Riffilmótaröð Skaust er löngu orðin landsþekkt fyrir vandaða framkvæmd og gleði á mótunum
sjálfum. Fengum umfjöllun í sjónvarpinu á síðasta ári um þessi mót.
Með aukinni virkni í félaginu eykst fjöldi fólksins sem notar svæðið og því fylgir óhjákvæmilega að
umgengni versnar. Við erum öll í sama liðinu og þótt að einhver gleymi að ganga frá eftir sig þá getur
sá næsti sem kemur alveg sett hlutina á sinn stað.
Villibráðakvöldið þróast með hverju árinu og er orðin ómissandi hluti af starfsári félagsins. Það eru
líka fleiri að stíga upp sem aðstoða við undirbúninginn og hafa staðið sig með prýði.
4. Ársreikningar
Þorsteinn B. Ragnarsson gjaldkeri félagsins fer yfir ársreikninginn sem nálgast má á vef félagsins.
Helstu tölur eru að í rekstrinum var tap upp á 1.441.942kr. á síðasta ári, og að skuldir og eigið fé
félagsins var um áramót jákvætt um 2.062.588kr.
Eftir yfirferð ársreiknings gaf fundarstjóri orðið laust og Bjarni tók til máls.
Leita þarf leiða til að auka tekjustreymi félagsins á næstunni og eru allar hugmyndir vel þegnar sem
lúta að því. Félagið er eiginlega of lítið til að geta verið með starfsmann á launum en það er þó alltaf
eitthvað að gera í því að taka á móti hópum; afmæli, steggjanir, gæsanir og þess háttar. Getur verið
erfitt að finna fólk í að taka á móti þessum hópum. Höfum hingað til verið að taka frítt á móti þessu
fólki en til dæmis gæti verið tækifæri til að taka hóflegt gjald fyrir þessa þjónustu.
Fundarstjóri bar ársreikninginn upp til samþykktar og var hann samþykktur samhljóða.
5. Lagabreytingar
Engar lagabreytingar bárust fyrir fundinn og lögin því óbreytt.
6. Kosning stjórnar, nefnda og tveggja endurskoðenda.
Bjarni kveður sér hljóðs og tilkynnir að hann gefi ekki kost á sér áfram í stjórn. Hann ætlar að snúa sér
af krafti að öðrum málum ekki ósvipað því sem hann gerði síðasta haust með DIO tónleikunum í
Valaskjálf. Hann minnir fundargesti á að það að vera í stjórn félags merkir ekki að fólk þurfi að vinna
öll verkin. Þó hafi fráfarandi stjórn verið klaufar við að deila út verkunum.
Kristján Krossdal mun heldur ekki gefa kost á sér í stjórn félagsins vegna anna.
Borist hafi framboð til stjórnar frá Sigbirni Nökkva Björnssyni og Sigurði Kára Jónssyni.
Formannskosning
Þorsteinn B. Ragnarsson býður sig einn fram til formanns.
Fundarstjóri spyr hvort fundargestir vilji kjósa um formann á miðum en svo var ekki og Þorsteinn því
réttkjörinn formaður
Kosning til stjórnar
Tvö sæti eru laus í stjórn eins og fram kemur hér að framan og tveir bjóða sig fram til stjórnar.
Fundarstjóri spyr hvort fundargestir vilji kjósa á miðum en svo var ekki og stjórn því réttkjörin.
Guðmundur Þorsteinn Bergsson
Sigurgeir Hrafnkelsson
Sigbjörn Nökkvi Björnsson
Sigurður Kári Jónsson
Stjórn skiptir með sér verkum.
Kosning í varastjórn
Jón Egill Sveinsson og Eyjólfur Skúlason eru hvorugir viðstaddir og hafa ekki gefið það út hvort þeir
gefi kost á sér áfram eða ekki.
Þorsteinn B. kemur með tillögu að því að Bjarni verði kosinn í varastjórn og Bjarni tekur vel í það.
Kjartan Róbertsson býður sig einnig fram í varastjórn.
Fundarstjóri spyr hvort fundargestir vilji kjósa í varastjórn á miðum en svo var ekki og Bjarni og
Kjartan því réttkjörnir.
Kosning í nefndir
Riffilnefnd
Ekki óskað eftir neinum breytingum á þeirri nefnd og hún því kjörin áfram óbreytt.
Hjalti Stefánsson, formaður
Dagbjartur Jónsson
Baldur Reginn Jóhannsson
Jón Magnús Eyþórsson
Ingvar Ísfeld Kristinsson
Jón Hávarður Jónsson
Jónas Hafþór Jónsson
Sigurður Kári Jónsson
Haglabyssunefnd
Kristján Krossdal gefur ekki kost á sér áfram í nefndina en hún er það fjölmenn að hún telst starfhæf
þótt að hann fari út. Nefndin því kjörin áfram að Kristjáni undanskildum.
Ninni Gústavsson, formaður
Sveinbjörn V. Jóhannsson
Haraldur Gústafsson
Poul Jepsen
Guðmundur Ingi Einarsson
Villibráðanefnd
Ekki óskað eftir neinum breytingum á þeirri nefnd og hún því kjörin áfram óbreytt. Vantar þó nánari
upplýsingar um hverjir eru í henni.
Bogfimideild
Ekki óskað eftir neinum breytingum á þeirri nefnd og hún því kjörin áfram óbreytt.
Haraldur Gústafsson
Sigurgeir Hrafnkelsson
Endurskoðendur
Ekki óskað eftir neinum breytingum á endurskoðendum og þeir því kjörnir áfram.
Sigurður Álfgeir Sigurðsson
Helgi Jensson
Bent er á að formenn nefnda þurfi að yfirfara hverjir eru skráðir í hverja nefnd og gera leiðréttingar á
heimasíðunni ef þörf er á.
7. Upphæð árgjalds ákveðin
Þorsteinn Baldvin mælir fyrir tillögu um breytingu.
Reksturinn hefur gengið mjög vel og hafa félagar fengið að njóta þess. En þar sem að styrkir frá Alcoa
eru ekki að berast lengur er stungið upp á hækkun um 1.000kr. þannig að gjaldið verði 6.000kr.
Fundarstjóri spyr hvort það séu fleiri tillögur um breytingu árgjalds á fundinum og er stungið upp á
7.000kr.
Einnig er stungið upp á 10.000kr en fundarmenn telja það of hátt og var fallið frá því.
Kosið var því um hækkun árgjalds í 7.000kr þar sem sú tillaga gengur lengra og var hún samþykkt með
flestum greiddum atkvæðum.
8. Önnur mál
Þorsteinn tekur til máls og þakkar Bjarna fyrir fórnfúst starf undanfarin ár. Einnig er Kristjáni Krossdal
þakkað fyrir góð störf í haglabyssunefndinni. Mikil breyting til hins betra hefur orðið á
haglabyssusvæðinu en einhverjum verkefnum ólokið en mest einhver frágangur.
Rafmagnsmál á svæðinu hafa mikið verið í umræðu og væri gott að koma þeim í betra lag. Vindrella
og sólarsellur með geymapakka hafa verið í skoðun en ekkert verið ákveðið í þeim efnum. Hvort sem
að annað eða bæði verði fyrir valinu þá þarf samt að endurnýja rafstöðina sem er uppi á svæði. Hún
er orðin mjög lúin og ekki áreiðanleg. Gaman væri líka að fá lýsingu í riffilhúsið.
Fundarstjóri spyr hvort að fleiri vilji kveða sér hljóðs undir þessum lið en svo var ekki og biður þá
nýjan formann um að slíta fundi.
Þorsteinn þakkar fyrir góðan fund og hlakkar til að vinna með nýjum og gömlum stjórnarmönnum á
komandi starfsári og býður til villibráðaveislu.
Fundi slitið.